Endurskoðendafyrirtækið Erns and Young á yfir höfði sér málsókn í New York fyrir að hafa áritað ársreikninga bandaríska fjárfestingabankans Lehmans Brothers, sem gáfu villandi mynd af stöðu bankans. Í mars var gefin út skýrsla þar sem ársreikningarnir voru krufnir og þar kom fram að ákveðin lán hefðu verið færð af efnahagsreikningi til að láta ársreikninginn líta betur út. Wall Street Journal segir frá þessu í dag.

Hefur þetta leitt til umræðu um hvernig stóru bankarnir lagfærðu reikninga sína áður en þeir voru birtir opinberlega  til að villa um fyrir hluthöfum, eftirlitsaðilum og fjárfestum. Áhætta bankanna var minnkuð rétt fyrir ársfjórðungsuppgjör og svo aukin aftur innan næsta fjórðungs áður en hún var minnkuð aftur fyrir uppgjör.

Nokkur umræða spratt upp hér á landi um uppgjör Glitnis og Landsbankans þegar skýrslur franskra og norskra sérfræðinga birtust í fjölmiðlum. Þar var ýmislegt gagnrýnt meðal annars að ársreikningar hefðu ekki gefið nægilega rétta mynd af fjárhagslegum styrk bankanna. Hefði allt verið gert eins og best verður á kosið hefðu báðir bankarnir misst starfsleyfi sitt um áramótin 2007 og 2008.