Hvergi er getið um Icesave í lánasamningum milli Íslands og hinna Norðurlandanna en skilyrðið fyrir því að lánsféð verði borgað út er að endurskoðuð efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) hafi verið samþykkt hjá stjórn sjóðsins.

Þetta segir Jón Sigurðsson, formaður samninganefndar Íslendinga gagnvart Norðurlöndunum. Ritað var undir lánasamningana í Stokkhólmi í dag. Samtals nemur lánið um 1,775 milljörðum evra.

Samningarnir eru milli Íslands og Danmerkur, Finnlands og Svíþjóðar og milli Seðlabanka Íslands, með ábyrgð íslenska ríkisins, og Noregsbanka, með ábyrgð norska ríkisins.

Í sameiginlegri tilkynningu þeirra sem standa að láninu segir að lánin verði greidd út í fjórum jöfnum hlutagreiðslum „sem eru tengdar fjórum fyrstu endurskoðunum á efnahagsáætlun Íslands með AGS og er hver greiðsla háð því að viðkomandi endurskoðun hafi verið samþykkt," segir í tilkynningunni.

Þótt ekki sé getið um Icesave í sjálfum samningunum hefur að sögn Jóns komið fram í samtölum við Norðurlöndin að þau leggi áherslu á að Íslendingar standi við sínar alþjóðlegu skuldbindingar og þar með innstæðutryggingakerfið. „Það er einfaldlega talið skipta miklu máli," segir hann.