Hank Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, kynnti í dag áætlun um endurhönnun reglna um fjármálakerfið þar í landi. Áætlunin er sögð eiga að taka á sumum af þeim vandamálum sem komið hafa í ljós við yfirstandandi fjármálakrísu í Bandaríkjunum.  Fjármálaráðuneytið hefur unnið að áætluninni í um það bil ár, en undanfarnar vikur hefur pressa frá þinginu um að sú vinna klárist aukist.

Aukin stjórn Seðlabankans

Meðal þess sem lagt er til og gæti komist til framkvæmda á næstunni er að gefa Seðlabankanum stærra hlutverk og aukin völd til að grípa til aðgerða þegar stöðugleika á fjármálamörkuðum er ógnað. Lagt er til að hann fái aukið svigrúm til að hafa áhrif á t.d. fjárfestingarbanka og áhættusjóði þegar stöðugleika er ógnað, en hann hefur á undanförnum vikum að einhverju leyti tekið sér þetta hlutverk með björgunum fjárfestingarbanka.

Ekki bráðabirgðaúrræði

Paulson lagði áherslu á að tillögunum er ekki ætlað að vera svar við nýliðnum atburðum á markaði og, að fáum undantekningum undanskildum, ætti ekki að innleiða breytingar fyrr en yfirstandandi erfiðleikar eru að baki. Reuters fréttastofan hefur eftir Paulson að menn verði að einbeita sér að þeim vandamálum sem þeir nú glíma við til að byrja með.

Meirihluti áætlunarinnar krefst auk þess lagasetningar eigi hann að koma til framkvæmda og því verður áætlunin einnig að verða samþykkt af nýjum forseta og nýju þingi þegar þar að kemur, hefur Reuters eftir Karen Petrou, meðstjórnanda Federal Financial Analytics í Washington.