Mikill afgangur varð á rekstri ríkissjóðs árið 2006 og styrktist staða höfuðstóls hans verulega. Veginn launakostnaður ríkisins jókst einnig heldur minna en gert var ráð fyrir. Þá er umhirða ríkisstofnana um bókhaldsgögn almennt í góðu lagi. Mikilvægt er hins vegar að stofnanir fylgi þeim áætlunum sem felast í fjárlögum hvers árs. Þá er eðlilegt að fyrirtæki sem ekki eru í rekstri en fá áætlanir í virðisaukaskatti verði tekin af fyrirtækjaskrá.

Í skýrslunni ?Endurskoðun ríkisreiknings 2006? kemur fram að fjárhagsstaða ríkissjóðs hefur batnað verulega undanfarin tvö ár vegna mikils afgangs sem verið hefur á rekstri hans, 115 ma.kr. árið 2005 og 82 ma.kr. árið 2006. Árið 2006 skýrist þessi afgangur einkum af auknum skatttekjum og öðrum rekstrartekjum vegna þenslu í íslensku efnahagslífi. Afkoma ríkissjóðs varð því mun betri en fjárlög ársins 2006 gerðu ráð fyrir, en þar var reiknað með 20 ma.kr. afgangi, og með sama áframhaldi er líklegt að höfuðstóll hans verði jákvæður á næsta ári.

Almennt er umhirða stofnana ríkisins um bókhaldsgögn í góðu lagi. Enn eiga hins vegar fjölmargar þeirra í erfiðleikum með að fylgja þeim áætlunum sem felast í fjárlögum hvers árs. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að alls reyndust tólf stofnanir í A-hluta ríkisins vera með samtals 221 m.kr. yfirdrátt á bankareikningi í árslok 2006. Bent er á að samkvæmt reglum fjármálaráðuneytisins um láns- og reikningsviðskipti ríkisstofnana í A-hluta ríkissjóðs er ríkisstofnunum óheimilt að fjármagna rekstur sinn með yfirdrætti á bankareikningi. Hallarekstur stofnana sem fara fram úr fjárheimildum hefur einnig verið fjármagnaður með greiðslum úr ríkissjóði og er þá færður sem skammtímaskuld þeirra við hann. Þær 75 stofnanir sem fóru meira en 4% fram úr fjárheimildum á árinu 2006 og voru í skuld við ríkissjóð höfðu fjármagnað hallann með 3,5 ma.kr. viðskiptaskuld við ríkissjóð.

Verulega hefur dregið úr áætlunum skattyfirvalda í virðisaukaskatti á undanförnum árum en þó eru enn um 26,2 ma.kr. í eftirstöðvum. Nú er gert ráð fyrir að einungis 3% af áætlun innheimtist. Ríkisendurskoðun leggur til að fyrirtæki sem eru sannarlega ekki í rekstri en fá áætlanir verði afmáð úr fyrirtækjaskrá, samkvæmt heimild í lögum um hlutafélög og einstaklingshlutafélög. Þá leggur stofnunin til að skattyfirvöld fái heimild til að loka virðisaukaskattsnúmerum þeirra aðila sem eru í verulegum vanskilum.

Við fjárhagsendurskoðun fyrir árið 2006 kannaði Ríkisendurskoðun sérstaklega hvernig staðið var að framkvæmd kjarasamninga og vörpun launa frá maí 2006. Fram kom að í heild hækkaði veginn launakostnaður ríkisins milli áranna 2005 og 2006, þ.e. þegar tekið er tillit til breytts vinnuframlags, heldur minna en gert var ráð fyrir í áætlun um launakostnað, þ.e. um 8,1% miðað við um 8,6% áætlun. Talsverður munur reyndist á ráðuneytum að þessu leyti. Í sumum tilvikum á aukinn kostnaður sér eðlilegar skýringar, þ.e. felst í viðleitni ríkisvaldsins eða einstakra ráðuneyta til að bæta kjör tiltekinna starfsstétta eða leiðrétta mun á launum starfsmanna eftir ráðuneytum eða stofnunum. Að öðru leyti skýrast frávik frá áætlun oftast nær af því að fjöldi starfsmanna var annar en gert var ráð fyrir.

Stjórnendur stofnana töldu yfirleitt að upplýsingakerfi launa uppfyllti þarfir þeirra sem skrá í það og skilaði þeim upplýsingum sem þeir þörfnuðust til stjórnunar. Könnun Ríkisendurskoðunar benti líka til að langflestar stofnanir hafi samræmt röðun á öllum störfum og að sú röðun byggi á skriflegum rökstuðningi, óháðum þeim einstaklingum sem gegni störfunum. Þá hafa þær stofnanir sem áður greiddu (fasta) ómælda yfirvinnu yfirleitt varpað slíkum greiðslum inn í föst dagvinnulaun út frá mati á persónu- eða tímabundnum þáttum. Að lokum er föst yfirvinna nú alla jafna mæld. Kjarasamningarnir hafa þannig stuðlað að auknu gagnsæi og hlutlægni í launaákvörðunum.

Við endurskoðun ríkisreiknings ársins 2006 lagði Ríkisendurskoðun sérstaka áherslu á að lánardrottnar og skuldunautar ríkisins staðfestu stöðu sína gagnvart stofnunum eða fyrirtækjum ríkisins með formlegum hætti. Könnunin sýndi að í langflestum tilvikum er skráning fjárhæða í lagi. Örfáar undantekningar komu í ljós og hefur sérstaklega verið tekið á þeim málum og réttum aðilum bent á þau atriði sem þarfnast nánari skoðunar.