Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra vonast til þess að hægt verði að ná niðurstöðu um breytingar á Icesave-málinu sem verði lögð fyrir þingið á næstu dögum.

Náist slík niðurstaða vonast hún til þess að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins taki fyrir fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunarinnar jafnvel þótt Alþingi verði ekki endanlega búið að afgreiða Icesave.

Þetta kom fram í umræðum á Alþingi í dag.

Jóhanna sagði í svari við fyrirspurn Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, að hún gæti tekið undir það að það væri óviðunandi að Bretar og Hollendingar, tvær þjóðir, hefðu á undanförnum vikum og mánuðum haldið endurskoðun efnahagsáætlunar AGS og íslenskra stjórnvalda í gíslingu.

„Það virðist bara vera að svo hafi verið gert og það er óviðunandi fyrir Ísland," sagði hún.

Hún ítrekaði í lok umræðunnar um þetta mál að hún héldi í vonina um að það fengist lausn á Icesave innan tíðar og þar með færi fram endurskoðun efnahagsáætlunar AGS og stjórnvalda.