Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, segir að boðun hluthafafundar á þriðjudaginn endurspegli ákveðnar breytingar sem hafi orðið í eigendahópnum. Hlutabréf hafi verið að skipta um hendur undanfarna mánuði.

Spurð hvort hún búist við því að áherslur stjórnarinnar muni breytast eftir hluthafafundinn svarar Sigrún Ragna: „Það verður að koma í ljós. Það er eðlilegt að nýir aðilar leitist eftir því að hafa áhrif. Ég held að það sé gott fyrir öll félög, hvort sem þau eru á markaði eða ekki, að stjórnir séu þannig að skipaðar að þar séu fulltrúar ólíkra eigendahópa."

Síðasta árshlutauppgjör VÍS var undir væntingum. Sigrún Ragna segist ekki  tengja boðun hluthafafundur við það enda hafi fundurinn verið boðaður áður uppgjörið var kynnt.

Sigrún Ragna segir að uppgjörið hafi vissulega verið undir væntingum í vátryggingarekstrinum. „Ég held satt að segja að væntingar þeirra greiningaraðila sem voru að senda frá sér afkomuspár vegna fjárfestingastarfseminnar hafi verið nokkuð hástemmdar. Menn hafa kannski ekki alveg áttað sig á því hvernig þróunin var í fjórðungnum á erlendum eignum félagsins. Ég held að þessir aðilar hafi kannski ekki alveg tekið nægilegt tillit til þess að gengi hlutabréfa erlendis lækkað og krónan styrktist. Hvað skráð félög varðar, ekki síst tryggingafélög, þarf að varast að draga of miklar ályktanir út frá afkomu eins fjórðungs heldur horfa á lengri tíma. Þegar það er gert þá er félagið í ágætis málum að mínu mati."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .