Euler Hermes, stærsta greiðslutryggingafélag í heimi, hefur nú tilkynnt Innnes ehf. að það muni opna fyrir tryggingar á innkaupum á þeirra vegum, fyrst fyrirtækja á Íslandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Innes en allt frá hruni hafa erlend greiðslutryggingarfyrirtæki sem tryggja greiðslur til birgja sem selja vörur til Íslands, veitt litlar sem engar tryggingar á viðskiptin vegna vantrúar á greiðslugetu íslenskra fyrirtækja. Þetta þýðir að mörg íslensk fyrirtæki hafa þurft að staðgreiða vörukaup eða útvega bankaábyrgðir til birgja til þess að fá vörur afhentar.

Fram kemur að Innnes, sem er innflytjandi á matvörum og sælgæti, hefur með þessu náð að endurheimta sömu greiðslufresti og það hafði fyrir hrun, en félagið skiptir við um eitt hundrað erlenda birgja um allan heim. Fyrir skömmu opnaði annað greiðslutryggingarfyrirtæki Astradius á Innnes en Astradius hefur í einhverjum mæli greiðslutryggt vörukaup frá íslenskum fyrirtækjum síðustu misseri. Eins hafði Coface, þriðja stærsta greiðslutryggingafélag í heimi, opnað fyrir viðskiptatryggingar en þeir annmarkar hafa fylgt þessum tveimur aðilum að erlendir birgjar eru margir hverjir aðeins með tryggingasamninga við Euler Hermes, þ.e. það fyrirtæki sem er stærst á sínu sviði í heiminum.

„Það er von forsvarsmanna Innnes að þetta séu jákvæð teikn frá Euler Hermes og að opnunin fyrir Innnes sé aðeins upphafið á því að fleiri erlendir birgjar fái greiðslutryggingarsamninga vegna vöru- og hráefnakaupa íslenskra fyrirtækja,“ segir í tilkynningunni.

Viðskiptaráð hefur einnig fjallað um málið á vef sínum og segir að þessi ákvörðun Euler Hermes endurspegli vonandi aukið traust félagsins til íslensks atvinnulífs, en strax eftir hrun bankakerfisins lokuðu öll stærstu alþjóðlegu greiðslufallstryggingafélögin á íslensk fyrirtæki.

„Síðustu mánuði og misseri hafa hins vegar félögin Atradius og Coface opnað almennt fyrir sambærilegar tryggingar hér á landi og gildir fyrir erlend fyrirtæki. Var það m.a. afrakstur vinnuhóps sem settur var á laggirnar í nóvember 2008 að frumkvæði Viðskiptaráðs og iðnaðarráðuneytisins,“ segir á vef Viðskiptaráðs en í þessum hóp hafa starfað, auk Viðskiptaráðs og iðnaðarráðuneytis, Creditinfo á Íslandi, TM, Sjóvá, Seðlabanki Íslands, utanríkisráðuneytið, efnahags- og viðskiptaráðuneytið ásamt fulltrúum allra bankanna.

„Þó skref Euler Hermes sé stutt þá er það í rétta átt og vonandi merki um að opnað verði frekar fyrir greiðslutryggingar til íslenskra aðila. Fyrirtæki geta flýtt þar fyrir með því að fylgja góðu fordæmi Innnes og leggja áherslu á reglubundna upplýsingagjöf til innlendra og erlendra aðila.“ segir Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, á vef ráðsins.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, á fundi Deloitte, Kauphallarinnar og Viðskiptaráðs um virkan hlutabréfamarkað í Turninum þann 24.11.11.
Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, á fundi Deloitte, Kauphallarinnar og Viðskiptaráðs um virkan hlutabréfamarkað í Turninum þann 24.11.11.
© BIG (VB MYND/BIG)

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs