*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 20. október 2021 17:33

Endurtekið efni frá Gunnari og Gylfa

Gunnar Jakobsson og Gylfi Zoëga vildu hækka vexti um 0,5% í stað 0,25%. Lögðu einnig til sömu hækkun síðast.

Ritstjórn
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.

Tveir nefndarmenn peningastefnunefndar, Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, og hagfræðiprófessorinn Gylfi Zoëga, töldu stýrivaxtahækkun Seðlabankans frá því fyrir tveimur vikum of hóflega. Vildu þeir hækka stýrivexti um 50 punkta í stað 25. Þetta kemur fram í nýútkominni fundargerð peningastefnunefndar.

Þeim Gunnari og Gylfa varð þó ekki að ósk sinni þar sem tillaga Ásgeir Jónssonar, Seðlabankastjóra og formanns nefndarinnar, um 0,25% hækkun, var samþykkt af honum sjálfum, auk Rannveigar Sigurðardóttur, varaseðlabankastjóra peningastefnu, og Katrínar Ólafsdóttur, lektors við HR.

Er þetta í annað sinn í röð sem Gunnar og Gylfi vildu ganga lengra í vaxtahækkunum en aðrir nefndarmenn. Er stýrivextir voru hækkaðir úr 1% í 1,25% í lok ágústmánaðar kom fram í fundargerð sem birtist í byrjun september að Gunnar og Gylfi hafi viljað hækka vexti um 0,5%, í 1,5%. Lutu þeir þó þá í lægra haldi fyrir meirihluta nefndarinnar, líkt og nú.

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti úr 1,25% í 1,5% fyrir tveimur vikum síðan.