Tveir nefndarmenn peningastefnunefndar, Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, og hagfræðiprófessorinn Gylfi Zoëga, töldu stýrivaxtahækkun Seðlabankans frá því fyrir tveimur vikum of hóflega. Vildu þeir hækka stýrivexti um 50 punkta í stað 25. Þetta kemur fram í nýútkominni fundargerð peningastefnunefndar .

Þeim Gunnari og Gylfa varð þó ekki að ósk sinni þar sem tillaga Ásgeir Jónssonar, Seðlabankastjóra og formanns nefndarinnar, um 0,25% hækkun, var samþykkt af honum sjálfum, auk Rannveigar Sigurðardóttur, varaseðlabankastjóra peningastefnu, og Katrínar Ólafsdóttur, lektors við HR.

Er þetta í annað sinn í röð sem Gunnar og Gylfi vildu ganga lengra í vaxtahækkunum en aðrir nefndarmenn. Er stýrivextir voru hækkaðir úr 1% í 1,25% í lok ágústmánaðar kom fram í fundargerð sem birtist í byrjun september að Gunnar og Gylfi hafi viljað hækka vexti um 0,5%, í 1,5%. Lutu þeir þó þá í lægra haldi fyrir meirihluta nefndarinnar, líkt og nú.

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti úr 1,25% í 1,5% fyrir tveimur vikum síðan.