Ólafur Ólafsson athafnamaður kærði til Hæstaréttar úrskurð héraðsdóms, þar sem vísað var frá dómi kröfu hans á hendur ríkissaksóknara og íslenska ríkisins um að viðurkennt yrði að skilyrði fyrir endurupptöku máls sem dæmt hafði verið í Hæstarétti væru uppfyllt.

Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti í dag, kom fram að ákvörðun um endurupptöku máls væri á hendi endurupptökunefndar. Þótt dómstólar ættu úrskurðarvald um það hvort gætt hefði verið fyrirmæla laga, þegar nefndin tók afstöðu til endurupptökubeiðni Ólafs og gætu fellt þá ákvörðun nefndarinnar úr gildi yrðu taldir slíkir annmarkar á henni, væri það ekki á færi dómstóla að taka nýja ákvörðun í málinu eins og krafa Ólafs fæli í raun í sér. Var kröfunni því vísað frá dómi.

Þetta þýðir að eftir stendur krafa um að úrskurður endurupptökunefndar verði felldur úr gildi og verður sú krafa tekinn til efnislegrar meðferðar hjá héraðsdómi. Málinu er því að öllum líkindum ekki lokið.

Snýst málið um kaup félags í eigu Mohammed Bin Khalifa Al-Thani, sem er af konungsfjölskyldunni í Katar, á 5% hlut í Kaupþingi fyrir 26 milljarða króna í lok september 2008.

Fékk Ólafur þriggja og hálfs árs dóm sem þyngdur var í fjögur og hálft ár í Hæstarétti en þeir Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson  sem allir voru ábyrgir í málinu, hlutu einnig þunga fangelsisdóma í málinu.

Kærumálskostnaðurinn er felldur niður segir í dómsorði Hæstaréttar .