Hæstiréttur vísaði í dag frá endurupptöku Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar. Málið varðaði endurupptöku á sakamáli sem höfðað var gegn þeim vegna skattalagabrota en Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) dæmdi fyrir rétt rúmum tveimur árum að málsmeðferðin hefði brotið gegn Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE).

Í fyrrgreindu sakamáli var Jón Ásgeir dæmdur í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 62 milljón króna sektar í ríkissjóð. Tryggvi var dæmdur í átján mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 32 milljón króna sektar. Tólf mánaða fangelsi kæmi í stað sektanna yrðu þær ekki greiddar innan fjögurra vikna. Við meðferð málsins var upplýst að samanlagðar eftirstöðvar sektar þeirra væru rúmlega 53 milljónir.

Endurupptökunefnd hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að taka ætti mál þeirra upp að nýju í ljósi niðurstöðu MDE. Hæstiréttur benti á að það leiddi af 60. gr. stjórnarskrárinnar að dómstólar hefðu endanlegt vald í þessum efnum. Þessu næst benti dómurinn á að með aðild að MSE hefði ríkið ekki gengist undir skuldbindingu um að endurupptaka mál þar sem MDE dæmir ríkinu í óhag. Endurupptaka yrði ekki reist á slíkum grunni.

Lögum um meðferð sakamála var breytt árið 2008 og ákvæðum um endurupptöku þar með. Í lögskýringargögnum kom fram að þó orðalagi hafi verið breytt væri ekki ætlast til þess að merkingin væri önnur en áður. Nýjum staflið var þó bætt við en hann þótti ekki eiga við, hvorki með rýmkandi lögskýringu né lögjöfnun.

Vildu ekki taka sér lagasetningarvald

„Mannréttindasáttmálanum hefur eins og áður er fram komið verið veitt lagagildi hér á landi, þar með töldum 7. viðauka hans og hefur stöðu almennrar löggjafar. Í 2. gr. laga nr. 62/1994 er tekið fram að úrlausnir mannréttindanefndar Evrópu, Mannréttindadómstóls Evrópu og ráðherranefndar Evrópuráðsins séu ekki bindandi að íslenskum landsrétti. Leggja verður til grundvallar að með þessu hafi íslenski löggjafinn áréttað að þrátt fyrir lögfestingu mannréttindasáttmálans sé hér á landi byggt á grunnreglunni um tvíeðli landsréttar og þjóðaréttar,“ segir í dómi Hæstaréttar.

„Þótt íslenskir dómstólar líti til dóma mannréttindadómstólsins við skýringu mannréttindasáttmálans, þegar reynir á ákvæði hans sem hluta af landsrétti, leiðir af framangreindri skipan að það er hlutverk Alþingis, innan valdmarka sinna samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar, að gera þær breytingar á lögum sem þarf til að virða þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt mannréttindasáttmálanum. Fælist í niðurstöðu dómstóla að þeir hefðu með lögskýringu í reynd mælt fyrir um lagabreytingar í þeim tilgangi færu þeir út fyrir þau mörk sem stjórnlög setja valdheimildum þeirra,“ segir þar enn fremur.

Í dómnum er vikið að því að í kjölfar dóms MDE hafi verið gerðar breytingar á meðferð mála er varða brot gegn skattalögum og því hefði ríkið brugðist við dómi MDE. Þá er í niðurlagi dómsins vikið að því að með dómi sínum hafi Hæstiréttur ekki tekið afstöðu til þess hvort Jón Ásgeir og Tryggvi eigi önnur raunhæf úrræði til að leita réttar síns á grundvelli 13. gr. MSE.