*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 30. nóvember 2004 08:38

Endurvinnsla heyrúlluplasts boðin út

Ritstjórn

Ríkiskaup fyrir hönd Úrvinnslusjóðs hafa auglýst áhugasömum umsækjendum sem hafa hug á að gerast þjónustuaðilar við verkefni sem lýtur að söfnun og endurnýtingu heyrúlluplasts sem fellur til á Íslandi en áætlað er að milli 1600 - 1800 tonn af heyrúlluplasti berist til landsins árlega. Það er Úrvinnslusjóður í samvinnu við Bændasamtök Íslands sem vinnur að því að skipuleggja söfnun og endurnýtingu á plastinu en það er umfangsmikið og mikilvægt verkefni að safna plastinu saman og endurnýta þegar það hefur þjónað upprunalegum tilgangi sínum.

Úrvinnslusjóður hefur tekið saman greinargerð um fyrirhugað skipulag og lagt fram til kynningar. Í þeim hugmyndum sem liggja fyrir er gert ráð fyrir að Úrvinnslusjóður greiði ákveðna upphæð fyrir hvert kíló af plasti sem er safnað um leið og fyrir liggur staðfesting á móttöku plastsins til endurnýtingar. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á heimasíðu Úrvinnslusjóðs www.urvinnslusjodur.is Skrifstofa Úrvinnslusjóðs tekur á móti umsóknum og gengur frá samningum við þá sem uppfylla skilyrði sjóðsins. Gögnin verða tilbúin í afgreiðslum Ríkiskaupa og Úrvinnslusjóðs, frá og með þriðjudeginum 30. nóvember nk.