*

laugardagur, 17. ágúst 2019
Innlent 10. september 2018 16:57

Energy Co-Invest tekur yfir Green Energy

Kanadíska orkufyrirtækið Energy Co-Invest tekur yfir Green Energy Iceland auk tækni- og hugverkaréttinda móðurfélagsins.

Ritstjórn

Kanadíska orkufyrirtækið Energy Co-Invest mun taka yfir Green Energy Iceland auk tækni- og hugverkaréttinda móðurfélagsins, Green Energy Group, samkvæmt tilkynningu frá félaginu.

Energy Co-Invest hefur keypt allar helstu eignir Green Energy Geothermal, sem er sagt hafa verið í fararbroddi í þróun og framleiðslu á svokölluðum holutopps jarðvarmavirkjunum. Meginstarfsemi félagsins og höfuðstöðvar verða í Reykjavík, en þar hafa verkfræði- og stoðdeildir GEG verið frá stofnum félagsins árið 2009.

GEG er sagt búa yfir yfirgripsmikilli þekkingu á sviði hönnunar, innkaupum, byggingu og rekstri jarðvarmastöðva. Með náinni samvinnu við alþjóðlega samstarfsaðila og byrgja hafi fyrirtækinu tekist að selja íslenska þekkingu og færni á þessu sviði á alþjóðlegum mörkuðum.

Fyrirtækið hefur nú þegar afhent fimmtán holutoppsstöðvar til keníska fyrirtækisins Kenya Electricity Generating Company (KenGen) með samtals 81 MWe uppsett framleiðsluafköst. Fyrirtækið er jafnframt langt komið með byggingu á 5 MWe jarðvarmastöð í Bjarnarflagi fyrir Landsvirkjun. Fyrirhuguð er þátttaka í fjölmörgum jarðvarmaverkefnum víða um heiminn, s.s. í Asíu, Austur-Afríku, á eyjum í karabíska hafinu og Mið- og Suður Ameríku. 

„Við kynntumst Green Energy Geothermal og hæfileikaríkum starfsmönnum þess í sambandi við vinnu okkar við verkefnafjármögnun innan jarðvarmasviðsins. Þegar þetta einstaka tækifæri gafst til að kaupa fyrirtækið, gripum við það vegna þeirra augljósu samlegðaráhrifa sem bjóðast okkur með samþættingu holutoppsstöðvanna með sérfræðiþekkingu okkar á sviði verkefnafjármögnunar,“ segir Jordan Oxley, forstjóri Energy Co-Invest Global Corp.

Stikkorð: Group Green Energy