Íslenska orkufyrirtækið Enex er á meðal hugsanlegra fjárfesta sem hafa áhuga á að byggja og þróa jarðvarmaorkuver í bænum Bjelovar í Króatíu. Lilja Tryggvadóttir, framvæmdastjóri tæknisviðs Enex, staðfesti þetta í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

Hún sagði fulltrúa bæjaryfirvalda Bjelovar og sérfræðinga vera væntanlega til Íslands til að kynna sér nýtingu jarðvarma á Íslandi, en tók fram að málið væri á byrjunarstigi.

Þýska fyrirtækið Siemens og ísraelska orkufyrirtækið Ormat, sem skráð er á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum, hafa nú þegar lagt fram tillögur um þátttöku sem hugsanlegir fjárfestar. Bæjarstjóri Bjelovar, Djurdja Adlesic, segir að hún búist einnig við tillögum frá íslenskum fjárfestum.

Geysir Green Energy, sem er í eigu FL Group, Glitnis og verkfræðistofunnar VGK-Hönnunar, hefur ekki skoðað verkefnið, að sögn Ásgeirs Margeirssonar, forstjóra Geysis. Félagið var stofnað til þess að fjárfesta í verkefnum tengdum sjálfbærri orkuframleiðslu.

Samkvæmt upplýsingum frá Siemens og Ormat er verkefnið í Bjelovar ekki komið nógu langt til þess að nákvæmlega sé hægt að reikna út fjárfestingarþörfina. Hins vegar segja sérfæðingar fyrirtækjanna í jarðvarma að orka framleidd með jarðvarma á svæðinu verði 30-50% ódýrari en orka sem framleidd er með núverandi orkugjöfum.

Ekki er enn ljóst hvort að Enex ákveði að keppa um verkefnið, en fyrirtækið hefur reynslu af jarðvarmaverkefnum utan Íslands, þar á meðal í Kína. Reiknað er með að bæjaryfirvöld velji sér samstarfsaðila fyrir lok árs.

Vaxandi áhyggjur af áhrifum útblásturs gróðurhúsalofttegunda, ásamt aukinni eftirspurn eftir orku frá rísandi iðnríkjum, svo sem Kína og Indlandi, hafa leitt til þess að fjárfestar telja tækifæri felast í sjálfbærri orkuframleiðslu.

Landsbanki Íslands og Landsvirkjun hafa í sameiningu stofnað fjárfestingafélagið HydroKraft, sem ætlað er að fjárfesta í verkefnum erlendis sem tengjast endurnýjanlegri orkuvinnslu. HydroKraft leggur þó frekar áherslu á vatnsaflsfjárfestingar en fjárfestingar í jarðvarma.