Hans Bragi Bernharðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Enex-Kína ehf. og hefur störf þann 1. október næstkomandi, með meginstarfsstöð í Peking, eftir því sem kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur.

Helstu verkefni Enex-Kína snúa að jarðhitavinnslu, en félagði er í samstarfi við kínversk fyrirtæki um þróun og uppbyggingu hitaveitna. Yfirstandandi er undirbúningsvinna að hitaveitu í borginni Xianyang í Shaanxi héraði. Þá vinnur Enex-Kína að útvegun og sölu búnaðar frá Kína til Evrópu.

Hans Bragi lagði stund á nám í sagnfræði við Háskóla Íslands og kínversku við Beijing Language Institue í Beijing og lauk þaðan BA prófi í kínversku árið 2000. Hann hefur síðan m.a. starfað hjá sendiráði Íslands í Beijing og hjá Icelandic China (dótturfélagi SH) í Qingdao.
Enex-Kína ehf. er í jafnri eigu Enex hf, Íslandsbanka hf. og Orkuveitu Reykjavíkur. Stjórnarformaður Enex-Kína er Ásgeir Margeirsson.