Enex safnaði 567 milljónum í hlutafjárútboði sem fór fram dagana 15. nóvember til 8. desember, að því er fram kemur í tilkynningu. Umfram eftirspurn var ríflega 40%. Tilgangur útboðsins var að fjármagna þátttöku Enex í jarðvarmaveitum og raforkuframleiðslu erlendis.

Enex var stofnað til þess að samræma aðgerðir eigenda sinna til útflutnings á þekkingu og til verðmætasköpunar erlendis í krafti þekkingar og reynslu íslenskra fyrirtækja og stofnana á sviði vatnsafls og jarðvarma. Enex starfar víða um heim að virkjanaframkvæmdum á sviði jarðvarma með ráðgjöf, hönnun, verktöku, fjármögnun að hluta eða öllu leyti og rekstri orkuvera.

Fyrirtækið er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, Landsvirkjunar, ÍSOR, Hitaveitu Suðurnesja, Glitnis, Jarðborana og fjölda íslenskra verkfræðistofa og fyrirtækja á sviði orkunýtingar.

Enex er með jarðvarmaverkefni víða um heim, m.a. í Bandaríkjunum, El Salvador, Kína, Þýskalandi, Ungverjalandi og Slóvakíu. Capacent er ráðgjafar-, rannsóknar- og ráðningarfyrirtæki sem sinnir fjölbreyttum verkefnum fyrir viðskiptavini sína.

Capacent var ráðgjafi fyrirtækisins í útboðinu og sá um gerð kynningarefnis og kynningarmál ásamt allri annarri umsýslu útboðsins. Að undanförnu hefur Capacent lagt aukna áherslu á ráðgjöf við verðmat fyrirtækja, aðstoð við kaup og sölu fyrirtækja sem óháður aðili og ráðgjöf varðandi fjármögnun á skuldsettum yfirtökum.