Júlíus Jónsson forstjóri HS Orku (Hitaveitu Suðurnesja).
Júlíus Jónsson forstjóri HS Orku (Hitaveitu Suðurnesja).
© Hörður Kristjánsson (VB MYND/ HKR)

„Það eru engar afskriftir eða neitt þvíumlíkt heldur verið að koma HS Veitum í eðlilegra afborganaferli,“ segir Júlíus Jónsson, forstjóri HS Veitna. Fyrirtækið hefur endurfjármagnað skuldabréfaflokk veitufyrirtækisins sem gefinn var út við uppskiptingu Hitaveitu Suðurnesja í HS Orku og HS Veitur árið 2008. Lán hitaveitunnar voru á þeim tíma nær allar í erlendri mynt. Veiturnar voru hins vegar með tekjur í íslenskum krónum og þótti hagfelldara að lánin yrðu líka í krónum. Af þeim sökum var á sínum tíma gefinn út skuldabréfaflokkur upp á um 6 milljarða króna til tíu ára sem greiða átti upp með einni greiðslu árið 2018.

Júlíus segir í samtali við vb.is að þótt þetta hafi verið ráðlagt  á sínum tíma þá hafi það ekki verið hentugasta fjármagnsskipunin. Af þeim sökum hafi verið leitað eftir því að breyta lánafyrirkomulaginu.

Í tilkynningu frá HS Veitum í dag kemur fram að frestur eigenda skuldabréfaflokksins HSVE 08 01 sé liðinn og hafi 82% eigenda skuldabréfanna samþykkt að endurfjármagna lánin með útgáfu nýs skuldabréfaflokks. Nýi skuldabréfaflokkurinn sem er upp á rúma 5,6 milljarða króna, er greiddur með jöfnum afborgunum í stað eingreiðslu. Hann ber 3,75% fasta vexti og er til 20 ára.

Þá segir í tilkynningunni að vegna skiptanna muni gamli skuldabréfaflokkurinn sem var áður að nafnvirði sex milljarðar króna minnka um fjóra milljarða að nafnivirði. Þá munu HS Veitur fella niður eign sína í eigin skuldabréfum upp á tæpan 1,1 milljarð króna.