Fjármálaeftirlitið telur ekki forsendur til aðgerða vegna kvörtunar Straums fjárfestingarbanka hf. Þetta kemur fram í tilkynningu Íslandsbanka til Kauphallarinnar.

"Íslandsbanka hf. hefur borist bréf Fjármálaeftirlitsins, dags. 8. júlí sl. Þar kemur fram að Fjármálaeftirlitið hafi aflað sér gagna og upplýsinga um sölu Íslandsbanka hf. á tæplega 2/3 hlutafjár í Sjóvá vegna kvörtunar frá Straumi fjárfestingabanka hf. Kvörtunin laut að því að ákvörðun meirihluta stjórnar bankans og stjórnenda hans um sölu eignarhlutarins, undanfari hennar og sá grundvöllur sem ákvörðunin byggði á hefði falið í sér óeðlilega viðskiptahætti, sbr. þar til greind ákvæði laga um fjármálafyrirtæki og verðbréfaviðskipti. Niðurstaða Fjármálaeftirlitsins er að kvörtunin gefi ekki tilefni til frekari aðgerða.

Fyrirvari Fjármálaeftirlitsins á samþykki þess fyrir meðferð Milestone ehf. á virkum eignarhlut í Sjóvá er því ekki lengur fyrir hendi."