Framkvæmdastjóri nýs samþætts sviðs hjá Eimskip og dótturfélaginu TVG Zimsen telur áhrif tolladeilna og veirusýkingar á flutninga fljótt ná jafnvægi, og horfir til aukinnar sóknar, þar á meðal til Grænlands

Síðastliðið rúmt ár hefur einkennst af hagræðingu í starfsemi Eimskipafélags Íslands, en í byrjun síðasta árs tók Vilhelm Már Þorsteinsson við stjórnartaumunum í félaginu. Í síðasta mánuði fækkaði félagið stöðugildum hjá Eimskip og dótturfélaginu TVG Zimsen um 14, samhliða skipulagsbreytingum þar sem Björn Einarsson, þáverandi framkvæmdastjóri TVG Zimsen, tók við framkvæmdastjórn nýs samþætts sölu- og viðskiptastýringarsviðs Eimskipafélagsins.

Í uppgjöri Eimskipafélags Íslands fyrir síðasta árs sem birt var í lok síðustu viku kemur fram að hagnaður félagsins dróst mikið saman milli ára, eða úr sem nemur einum milljarði íslenskra króna árið 2018 í 139 milljónir króna á síðasta ári. Jafnframt segir forstjórinn hagræðingaraðgerðirnar hafa skilað jákvæðum áhrifum í rekstrinum og það muni halda áfram á þessu ári með aukinni samþættingu og áherslu á kjarnastarfsemi.

Ed Sheeran og hvalir til Eyja

Björn Einarsson segir ætlunina með nýja sviðinu vera að allar einingar Eimskipssamstæðunnar, það er þjónusta skipafélagsins sjálfs, sem og flutningsmiðlunin TVG Zimsen, vinni þétt saman við að búa til heildarlausnir fyrir viðskiptavini á sem hagkvæmastan hátt.

„Við vorum að búa til eitt öflugt svið sölu- og viðskiptastýringar sem ég stýri, því tilheyra viðskiptaeiningarnar inn- og útflutningur Eimskips og dótturfélagið TVG Zimsen sem ég stýrði áður. Það má segja að skipta megi aðgerðum félagsins í þrennt, það er samhæfingu, hagræðingu og svo nýja og aukna sókn á markaði með öflugu þjónustuframboði, byggðri á sterkri samhæfingu á frábærum vörumerkjum okkar, sem hvert fyrir sig eru gríðarlega sterk á sínu sviði," segir Björn.

„Þessu til viðbótar verður samhæfingin við Flytjanda aukin, því við viljum birtast sem eitt gagnvart okkar viðskiptavinum. TVG Zimsen er flutningsmiðlun sem sinnir bæði miðlungsstórum, og smærri viðskiptavinum, þá fyrst og fremst í innflutningi, bæði í öflugri flugfrakt, og á hafi, en svo er félagið einnig að taka mjög þétt skref inn á netverslunarmarkaðinn.

Það þarf nefnilega lógístík í öllu, hvort sem það er að flytja búnað fyrir viðburði, en við komum til dæmis drjúgt að uppsetningu á Ed Sheeran tónleikunum, eða fyrir kvikmyndatökur. Svo höfum við verið í sértækari verkefnum eins og þegar „beluga" hvalirnir voru fluttir frá Kína til Vestmannaeyja. Það er enginn sá afkimi í flutningum sem við getum ekki sinnt, enda samstæðan stærst á þessu sviði hér á landi."

Miklu minni bílainnflutningur

Björn segir þjónustuna sem viðskiptavinir félagsins þurfa geta verið margháttaða, allt frá skjalavinnslu, tollafgreiðslu og að afhendingu heim að dyrum. „Tökum sem dæmi bílaumboðin, þau þurfa að flytja inn bílana sem gert er skipafélagsmegin hjá okkur en svo ef til dæmis bíll er klesstur seinnipartinn í dag, þá getum við sótt varahlut á miðlægan lager í Evrópu og hann verið kominn hingað til lands með flugi daginn eftir. Það eru svona lausnir sem við erum að búa til," segir Björn.

Spurður hvort hann hafi áhyggjur af minnkandi flutningum yfir heimshöfin vegna áhrifa tolladeilna og nú síðast minni framleiðslu vegna veirusýkingar segist hann búast við að jafnvægi náist fyrr en seinna.

„Við höfum engar áhyggjur af langvarandi áhrifum þessara þátta, þó að við höfum auðvitað áhyggjur af velferð fólks eins og aðrir og við höfum orðið vör við þetta hjá neti samstarfsaðila okkar sem nær út um allan heim. Við erum vakandi yfir þeim aðstæðum sem eru í gangi í heiminum en horfum björtum augum fram á við, enda hefur til dæmis flutningur okkar yfir Atlantshafið vaxið mikið. Það er vissulega minnkun í innflutningi til landsins, og við sjáum hvaða vöruflokkar gefa mest eftir þegar það er samdráttur. Hann sýnir sig í miklu minni bílainnflutningi, en einnig í stærri neysluvörum eins og fyrir byggingageirann, húsgögn og annað slíkt. Það eru gríðarlega krefjandi aðstæður en einnig mikið af tækifærum framundan."

Opna leiðir til Grænlands

Tafir hafa orðið á afhendingu tveggja skipa sem Eimskipafélagið hefur verið að láta smíða fyrir sig í Kína, bæði vegna áhrifa COVID-19 veirunnar, og svo brann yfir rafall í prufukeyrslu í Brúarfossi. Þriðja systurskipið, sem smíðað var fyrir grænlenska félagið Royal Arctic Line, er þegar á leiðinni yfir hafið.

„Þetta eru þrjú 2.150 eininga gámaskip, sem eru alveg 300 gámaeiningum stærri en stærstu skipin sem við erum með í dag, og eru stærstu skip flotans. Skipin þrjú munu sigla milli Grænlands, Íslands, Færeyja og Skandinavíu vikulega," segir Björn Einarsson.

„Við erum að sjá mikil tækifæri í auknu samstarfi við Royal Arctic Line og flutningum til Grænlands, bæði fyrir íslenska útflytjendur þangað og svo erum við að stofna okkar eigin skrifstofu í Nuuk. Danmörk hefur verið eins og eitt stórt vöruhús fyrir Grænland en núna opnast mun fleiri leiðir og markaðir fyrir grænlenskt samfélag. Ísland er með öfluga innviði og við vel í stakk búin til að spila aukið hlutverk gagnvart Grænlandi. Má líkja þessu við það hlutverk sem Eimskipafélagið skipaði þegar það var stofnað fyrir íslenskt samfélag, en nú fyrir það grænlenska."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .