Stærstu bresku bankarnir hafa tímabundið lokað á arðgreiðslur til hluthafa sinna vegna þrýstings frá yfirvöldum. Með þessari aðgerð gefst bönkunum aukið svigrúm til að bregðast við væntanlegu tapi vegna áhrifa kórónuveirunnar. Reuters greinir frá.

Bankarnir sem um ræðir eru Barclays, HSBC, Lloyds Banking Group, Royal Bank of Scotland, Standard Chartered og breski armur spænska bankans Santander. Tóku umræddir bankar ákvörðun um að hætta tímabundið að greiða út arð eftir tilmæli þess efnis frá yfirvöldum. Á síðasta ári greiddu ofantaldir bankar út yfir 8 milljarða punda í arðgreiðslur.

Þá hafa yfirvöld sömuleiðis komið þeim tilmælum til bankanna að þeir greiði ekki stjórnendum sínum bónusa á þessu ári.