*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Erlent 28. júlí 2020 14:12

Vilja stöðva arðgreiðslur út árið

Bankar á Evrusvæðinu gætu þurft að fresta arðgreiðslum þar til í janúar næstkomandi eftir ráðleggingar frá Seðlabanka Evrópu.

Ritstjórn
Seðlabanki Evrópu
epa

Seðlabanki Evrópu (SE) hefur kallað eftir því að bankar á Evrusvæðinu greiði ekki út arð þar til í janúar á næsta ári. Einnig hefur hann brýnt fyrir hóflegum þóknunum starfsfólks á meðan heimsfaraldurinn varir yfir. Financial Times greinir frá

Vonast er til að bankarnir verði í betri stöðu til að takast á við útlánatöp og geti veitt fyrirtækjum meira lánsfé í núverandi efnahagsástandi ef ráðleggingunum verður fylgt. 

Ráðleggingar SE fengu góðar viðtökur hjá Breska bankaeftirlitinu (e. Prudential Regulation Authority). Eftirlitið, sem er undir Englandsbanka, sagði fyrr í dag að það myndi endurskoða á fjórða ársfjórðungi hvort bankar þar í landi mættu byrja að greiða út arð á næsta ári. 

Í mars síðastliðnum skipaði eftirlit SE bönkum á Evrusvæðinu að stöðva arðgreiðslur tímabundið, að minnsta kosti fram í október, í kjölfar aðgerðapakka stjórnvalda sem hjálpuðu bönkunum að lána bágbornum fyrirtækjum. 

Hlutabréf evrópskra banka hafa fallið töluvert í ár eftir úbreiðslu Covid-veirunnar og frestana arðgreiðslna. Stoxx Europe 600 bankavísitalan hefur lækkað um meira en þriðjung á árinu samanborið við einungis 10% fall hjá almennu Stoxx Europe 600 vísitölunni. 

Stikkorð: Seðlabanki Evrópu SE