Starfsmaður vörumóttöku í ótilgreindu fyrirtæki úlnliðsbrotnaði þegar starfsmaður annars fyrirtækis ók lyftara á vörubretti með þeim afleiðingum að þrír bjórkútar féllu á starfsmann vörumóttökunnar. Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum komst að þeirri niðurstöður að starfsmaðurinn sem brotnaði ætti hvorki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu vinnuveitanda síns né vinnuveitenda einstaklings sem ók lyftaranum.

Seinagangur á tilkynningu til vinnueftirlits

Hinn úlnliðsbrotni starfsmaður lýsti atvikum á þá leið að viðkomandi hafi unnið við móttöku á bjórkútum þegar starfsmaður annars fyrirtækis kom með rafmagnslyftara og ýtti við tveimur vörubrettum í stað þess að taka annað út fyrst. Kom þá hnykkur á seinna brettið og fullir bjórkútar á því fóru af stað.

Starfsmaðurinn í vörumóttökunni brást þá skjótt við því og greip kútana og kom þeim aftur á sinn stað. Viðkomandi bað starfsmanninn á lyftaranum að bíða með frekari hreyfingu á lyftaranum, en sá gerði það þó ekki og keyrði lyftarann aftur af stað með þeim afleiðingum að þrír fullir kútar féllu af bretti og ofan á handlegg móttökustarfsmannsins.

Hönd móttökustarfsmannsins bólgnaði fljótt og varð svört og leitaði starfsmaðurinn til læknis samdægurs og kom þá í ljós brot á hægri úlnlið, sem hafði í för með sér varanlegar afleiðingar. Slysið var þó ekki tilkynnt til Vinnueftirlitsins fyrr en um 5 vikum síðar.

Fyrirtækin beri ekki ábyrgð á slysinu

Í áliti úrskurðarnefndarinnar kemur fram að engar upplýsingar eða vitnisburður geti sýnt fram á hvað gerðist í raun og að á grundvelli fyrirliggjandi gagna teljist ekki sannað að fyrirtækið sem starfsmaðurinn á lyftaranum vann fyrir hafi vanrækt það að fara yfir öryggisatriði eða að starfsmaðurinn hafi ekki farið eftir tilmæli fyrirtækisins. Því var ekki fallist á að fyrirtækið væri bótaskylt úr ábyrgðartryggingu.

Þá kemur fram að fyrir liggi að fyrirtækið sem hinn úlnliðsbrotni starfsmaður starfaði fyrir, hafi ekki tilkynnt slysið til vinnueftirlitsins fyrr en fimm vikum eftir atvikið en það leiði þó ekki til þess að því sé haldið fram að starfsmenn á vegum fyrirtækisins hafi verið valdir að slysinu né geti síðbúin tilkynning leitt til þess að fyrirtækið beri ábyrgð á afleiðingum slyssins.

Niðurstaðan var því sú að hinn slasaði starfsmaður ætti ekki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingum fyrirtækjanna.