Fatlaður einstaklingur, sem kemst ferða sinna í rafmagnshjólastól, á ekki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu verktaka fram af rampi fyrir utan Kringluna. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.

Líkt og aðrir úrskurðir nefndarinnar, sem Viðskiptablaðið hefur sagt frá að undanförnu, var úrskurðurinn kveðinn upp í fyrra en birtur nýverið.

Atvik málsins voru þau að einstaklingurinn var að koma úr verslunarmiðstöðinni en framkvæmdir höðu staðið yfir við hana. Sól var lágt á lofti og blindaðist maðurinn af henni með þeim afleiðingum að hann ók fram af rampinum. Hlaut hann af því mar og tognun.

Maðurinn taldi að frágangur rampsins hefði ekki verið fullnægjandi og verið sérlega hættulegur þeim sem nýta sér hjólastóla. Kringlunni og verktökum hafi borið að gæta þess sérstaklega að slíkt gæti ekki gerst.

Tryggingafélagið hafnaði bótaskyldu á þeim grunni að verið væri að krefjast bóta úr rangri tryggingu, það er úr ábyrgðartryggingu verktakans en ekki rekstrarfélags Kringlunnar. Síðarnefndi aðilinn hefði borið ábyrgð á verkinu og umræddum rampi og því ekki hægt að fella sök á verktakann.

Í niðurstöðu nefndarinnar segir að verktakinn hafi haft ábyrgð á afmörkuðum hluta verksins og að ekkert lægi fyrir í málinu sem benti til þess að það hefði haft nokkuð með rampinn að gera. Sökum sönnunarskorts var ábyrgð því ekki felld á verktakann.