Frá því í maí hefur gengi bréfa stóru fasteignafélaganna þriggja – Reita, Eikar og Regins – verið í lækkunarfasa. Þetta einskorðast þó ekki við fasteignafélögin, því hlutabréfaverð margra annarra félaga í Kauphöllinni hefur einnig lækkað á síðustu mánuðum. Af samtölum Viðskiptablaðsins við greiningaraðila kemur lækkunin nokkuð á óvart, enda hafi rekstur félaganna verið í takt við væntingar og rekstraráætlanir. Mögulega hafi fjárfestar farið að verðleggja félögin síðastliðið sumar með svartsýnni sýn á hagsveifluna, ferðaþjónustuna, atvinnuhúsnæðismarkaðinn og vaxtastigið en áður.

Forstjórar fasteignafélaganna telja rekstrarumhverfið á fasteignamarkaði þó hagstætt og heilbrigt. Þeir segja jákvætt að hagkerfið, fasteignamarkaðurinn og ferðaþjónustan séu að leita í eðlilegra horf eftir ævintýralegan uppgang undanfarinna ára. Segjast þeir allir setja stefnuna á áframhaldandi stækkun þar sem tækifæri gefast til.

„Staðan á fasteignamarkaði er þannig að verð á atvinnuhúsnæði hefur hækkað líkt og á íbúðamarkaði og nýting almennt batnað,“ segir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita. „Verðbreytingar og nýting fasteigna veltur á þróun og horfum í efnahagsmálum og hversu mikið verður byggt af nýbyggingum. Enn sem komið er hefur ekki mikið verið byggt af nýju atvinnuhúsnæði í þessari uppsveiflu ef frá er talið húsnæði undir hótel og gistingu. Staðan eftir einstaka tegundum atvinnuhúsnæðis er síðan misjöfn, en alltaf er eftirspurn eftir vel staðsettu og góðu húsnæði. Sérstaklega er og hefur verið mikil eftirspurn eftir iðnaðar- og lagerhúsnæði.“

Segir Guðjón Reiti hafa lagt áherslu á þróunareignir í rekstrinum að undanförnu, svo sem á Kringlureitnum, en einnig keypti félagið atvinnusvæði í landi Blikastaða síðastliðið sumar, sem unnið verður úr á næstunni.

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar, segir stöðuna á fasteignamarkaði góða. „Markaðurinn er bara á nokkuð góðum stað. Maður hefur sjaldan ef aldrei séð jafn heilbrigðar kennitölur og nú. Það er mjög jákvætt að útlit sé fyrir eðlilegri hagvöxt næstu árin og að það sé að hægja á fjölgun ferðamanna. Ég sé nákvæmlega ekkert neikvætt við það á atvinnuhúsnæðismarkaði,“ segir Garðar, sem segist vera mjög bjartsýnn á þann markað. „Nýting á skrifstofuhúsnæði hefur batnað eftir hrun og er sá markaður í jafnvægi. Svo er mjög auðvelt að leigja út hótel þó svo að það komi smá niðursveifla í ferðaþjónustunni.“

Eik vinnur um þessar mundir að því að ljúka framkvæmdum við Suðurlandsbraut 8 og 10, auk þess að ljúka endurfjármögnun á 12 milljarða króna skuldabréfaflokki

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, segist ekki sjá neinar blikur á lofti í hagkerfinu eða á fasteignamarkaði. „Það er mikill gangur í hagkerfinu og verður áfram. Það er að hægja á vexti ferðaþjónustunnar og það er bara eins gott, enda er vöxtur undanfarinna ára ekki sjálfbær til lengri tíma litið. Við erum ekkert stressuð yfir ástandinu þrátt fyrir kosningar. Við sjáum engar blikur á lofti.“ Hvað einstaka fasteignamarkaði varðar segir Helgi að enn sé offramboð á skrifstofuhúsnæði og ekki sé útlit fyrir að farið verði í að byggja mikið af slíku húsnæði. „Hins vegar eru tækifæri í verslun og veitingastöðum í miðbæ Reykjavíkur. Svo er gríðarleg eftirspurn eftir iðnaðarhúsnæði og höfum við verið að fjárfesta þar.“

Reginn hefur fjárfest í breytingum í Smáralind að undanförnu ásamt miðbænum, endurfjármagnað og selt eignir í Hraunbæ, Breiðholti, Árbæ og Kópavogi.

Nánar er fjallað um málið í Fasteignum, sérblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .