Skiptum er lokið á þrotabúi Nordica Spa ehf., sem rak heilsulind undir sama nafni á Hilton Nordica hótelinu. Lýstar kröfur í búið námu alls 178 milljónum króna en samkvæmt tilkynningu í Lögbirtingablaðinu fundust engar eignir í þrotabúinu.

Nordica Spa var tekið til gjaldþrotaskipta 9. júní í fyrra, en Landsbankinn var langstærsti kröfuhafi félagsins. Átti bankinn veð í tækjum og einhverjum öðrum lausamunum, sem Hilton hótelið keypti af þrotabúinu.

Í frétt í Morgunblaðinu frá því í júní árið 2010 kom fram að hótelið hefði greitt um tíu milljónir króna fyrir þessa muni. Nordica Spa leigði húsnæðið af Hilton hótelinu, sem fékk því í raun allan rekstur heilsulindarinnar án þess að þurfa að kaupa rekstrarfyrirtækið sjálft. Er lindin ennþá rekin í hótelinu undir nafninu Nordica Spa & Gym.

Engar eignir í búinu

Nýjasti ársreikningur sem liggur fyrir frá hinu gjaldþrota fyrirtæki sýnir að tap árið 2008 nam tæpum 68 milljónum króna. Rekstrartap á árinu nam 29,9 milljónum króna og svo bættust við umtalsverð vaxtagjöld. Það ár var eigið fé félagsins neikvætt um 37,5 milljónir króna og skuldir um 146,7 milljónir. Eignir í ársreikningi 2008 voru metnar um 109,2 milljónir króna. Þar af voru óefnislegar eignir 56,8 milljónir og viðskiptakröfur um 30,5 milljónir.

Í Lögbirtingablaðinu kemur fram að engar eignir hafi fundist í búinu við skipti og því fær Landsbankinn ekkert upp í tæplega 180 milljóna króna kröfur sínar.