Engar eignir fundust í þrotabúi einkahlutafélagsins Milli stanga þegar skiptum á því lauk 21. ágúst síðastliðinn. Félagið var í eigu Bjarna Jóhannessonar, fyrrverandi viðskiptastjóra Glitnis, og hélt það utan um 173 milljóna króna kúlulán sem bankinn veitti honum til kaupa á hlutabréfum bankans. Félagið var stofnað í maí árið 2008.

Lánið var í evrum, með 9,98% vexti og á gjalddaga í maí á þessu ári. Gengistap og vextir lita uppgjör félagsins og námu skuldir þess gagnvart Íslandsbanka tæpum 273 milljónum króna í lok árs 2010. Lýstar kröfur í þrotabú félagsins námu 262,3 milljónum króna, samkvæmt Lögbirtingablaðinu.

Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta í maí síðastliðnum.

Bjarni var á meðal þeirra sem gert var að senda í leyfi frá Íslandsbanka ásamt fjórum öðrum háttsettum starfsmönnum bankans þegar slitastjórn Glitnis hóf málaferli sín gegn fyrrverandi eigendum og stjórn Glitnis.