Engar eignir fundust í þrotabúi Þáttar International ehf., eignarhaldsfélags í eigu Milestone og bræðranna Einars og Benedikts Sveinssona. Skiptameðferð félagsins lauk í vikunni en alls var kröfum upp á 24 milljarða króna lýst í félagið. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag og hefur eftir Baldvini Hafsteinssyni, skiptastjóra Þáttar International, að ýmis atriði hafi þarfnast skoðunar í skiptameðferðinni. Þar má nefna atriði tengd eignatengslum milli þrotabúsins og annarra félaga og eignarhald þess í öðrum félögum.

Þáttur International var stofnað snemma árs 2007 en í febrúar það ár var Kauphöll tilkynnt um kaup félagsins á 9,2% hlut í Glitni og fór hlutur félagsins í bankanum aldrei niður fyrir 5% flöggunarmörk eftir það þótt einhver hluti bréfanna hafi verið seldur FL Group í apríl 2007.

Stærstu kröfuhafar voru Földungur ehf., sem krafðist 13 milljarða úr þrotabúinu, Arion banki og Milestone.