Engar eignir fundust í þrotabúi félagsins Emoll upp í rúmlega 19,2 milljóna króna kröfur. Félagið hélt utan um vefverslanirnar Bútik.is og Mona.is. Bútík seldi ýmsan varning tengdan tísku, hönnun og heilsu en Mona.is ýmis hjálpartæki ástarlífsins. Félagið var úrskurðað gjaldþrota í mars á þessu ári og lauk skiptum 16. september síðastliðinn, að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag.

Emoll var hluti af Vefpressunni sem á og rekur netmiðlana Eyjuna og Pressuna.

Fram kom í Viðskiptablaðinu í apríl að Emoll hafi verið selt til félagsins Verslanir ehf, sem áður hét Hlaupaskór ehf. Hlaupaskór var stofnað af Vigni Má Lýðssyni og Hafsteini Birgi Einarssyni árið 2010. Samnefnd vefverslun fyrir íþróttavörur var rekin af þess hálfu þar til Emoll ehf, félag Björns Inga Hrafnssonar, keypti alla hluti Hlaupaskós þann 18. apríl 2012, samkvæmt upplýsingum frá Reyni Svavari Eiríkssyni, lögfræðingi þeirra  Vignis og Hafsteins. Eftir það var skipt um nafn á félaginu og varð Björn Ingi stjórnarformaður þess. Í yfirlýsingu sem Reynir sendi frá sér vegna málsins á sínum tíma segir að Vignir og Hafsteinn hafi ekki komið nálægt sölu Emoll ehf. til félagsins Verslanir ehf. né rekstri þeirra félaga að öðru leyti.