Áfram er unnið að framtíðar fjármögnun flugfélagsins Capo Verde Airlines en íslenskir fjárfestar undir forystu Loftleiða, dótturfélags Icelandair Group, tóku við stjórnartaumunum í félaginu í fyrra. Frá þessu er greint á vef Túrista .

Erlendur Svavarsson, framkvæmdastjóri Capo Verde Airlines, segir í svari til Túrista að viðræður standi enn yfir milli hluthafa félagsins varðandi langtíma fjármögnun þess.

Vegna útbreiðslu kórónaveirunnar voru allar ferðir Cabo Verde Airlines á Grænhöfðaeyjum felldar niður þann 18. mars sl. og segir Erlendur að vonir standi til að opnað verði fyrir einhvern fjölda flugferða í ágúst.

Hann bendir þó á að óvissa ríki um hvaða takmarkanir verði á flugi Afríkuþjóða til Evrópu og Brasilíu en viðskiptamódel Capo Verde Airlines byggir á áætlunarflugi til fjögurra heimsálfa. Þannig fljúga þotur félagsins til áfangastaða í Norður- og Suður-Ameríku, Evrópu og svo innan Afríku.