Lítið þokast í átt að samkomulagi milli Landsbankans og slitastjórnar gamla Landsbankans (LBI) um endurskoðun á greiðsluskilmálum 240 milljarða erlendra skulda Landsbankans við LBI. Enn eru engar formlegar viðræður hafnar, að því er segir í frétt Morgunblaðsins. Meira en fimm mánuðir eru síðan LBI féllst á beiðni bankans að hefja viðræður en ekki hefur tekist að ná saman um tillögur að viðræðuskilmálum.

Fram kemur í skýrslu slitastjórnar LBI til kröfuhafa, sem var lögð fram á kröfuhafafundi bankans sl. miðvikudag og Morgunblaðið hefur undir höndum, að „talsvert ber á milli“ Landsbankans og LBI í þessum efnum.

Seðlabankinn hefur sagt að nauðsynlegt sé að lengja í endurgreiðsluferli þessarar skuldar Landsbankans áður en hægt verður að afnema fjármagnshöft, eða óbreyttu verður bankinn að greiða skuld sína við LBI að fullu árið 2018. Landsbankinn skoðar nú hvort hægt sé að endurfjármagna hluta skuldanna við LBI á erlendum mörkuðum.