Engar fundagerðir eru til um samskipti fjármálaráðherra, eða embættismanna á hans vegum, við erlenda aðila vegna Icesave málsins.

Þetta kemur fram í svari Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra við fyrirspurn Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Ragnheiður Elín lagði fram eftirfarandi fyrirspurn: „Hversu marga fundi, símtöl/samtöl, hefur ráðherra eða aðrir á hans vegum átt við erlenda aðila um Icesave-málið frá því að lög um ríkisábyrgð voru samþykkt 28. ágúst sl. og við hverja? Hvaða fundargerðir, formlegar eða óformlegar, minnisblöð, skriflegar frásagnir eða önnur skrifleg gögn liggja fyrir af þeim fundum? Stendur til að birta þau gögn?“

Í svari fjármálaráðherra kemur fram að ráðherra hafi átt fundi með ýmsum fulltrúum erlendra ríkja um Icesave-málið og málið hafi borið á góma á fundum með slíkum aðilum. Eins hafi það komið til tals í símtölum sem ráðherra hafi átt við fyrrnefnda aðila.

„Engar fundargerðir hafa verið haldnir um þessa fundi eða þeir skráðir fremur en venja hefur verið um samskipti af þessu tagi,“ segir í svari fjármálaráðherra.

„Ekki hefur verið venja að birta einhliða frásagnir af samskiptum sem þessum, enda mundi slíkt rýra gildi funda sem þessara og grafa undan trausti í samskiptum við erlend ríki.“

Þá kemur fram að í viðræðum vegna Icesave málsins eftir 28. ágúst sl. tóku f.h. ráðherra þátt starfsmenn ráðuneyta og Seðlabanka Íslands og aðrir eftir því sem tilefni var til.

„Engar fundargerðir voru ritaðar á fundunum,“ segir í svari fjármálaráðherra en jafnframt kemur fram að fyrstu fundirnir voru haldnir til gagnkvæmrar kynningar á málinu og stöðu þess.

„Eftir þá fundi voru tekin saman minnisblöð sem kynnt voru ríkisstjórn og fjárlaganefnd Alþingis og gerð hafa verið aðgengileg,“ segir í svari fjármálaráðherra.

„Niðurstaða þeirra viðræðna sem á eftir fóru kemur fram í samningunum og þeim gögnum sem fylgja. Engar fundargerðir viðræðufunda eða önnur hliðstæð gögn liggja fyrir, önnur en þau sem nefnd hafa verið og frammi liggja.“