Landhelgisgæslan segir engar greiðslur hafa farið fram vegna skotvopna frá Noregi og ekki hafi verið leitað eftir þeim. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Þar segir að Landhelgisgæslan hafi um langt árabil átt í mjög góðu samstarfi við Norðmenn um ýmis mál er varði þjálfun, búnaðarmál og öryggismál almennt, og hafi notið dyggrar aðstoðar og rausnarskapar af þeirra hálfu. Meðal annars sé í gildi tvíhliða samstarfssamningur milli þjóðanna um samstarf á sviði öryggis- og varnarmála og Landhelgisgæslan sé tengiliður við erlendar stofnanir á þeim vettvangi.

Landhelgisgæslan segir það hafa verið á þessum grundvelli og samkvæmt beiðni Ríkislögreglustjóra til Norðmanna að hún hafi haft milligöngu um að aðstoða Ríkislögreglustjóra í málinu. Samkomulag hafi verið gert þar sem búnaðurinn var verðmetinn 1/8 af verðmæti sams konar búnaðar frá framleiðanda. Hins vegar hafi aldrei farið fram neinar greiðslur og ekki hafi verið eftir því leitað.

Í tilkynningu Landhelgisgæslunnar kemur fram að lokum að vopnin hafi ekki verið formlega afhent Ríkislögreglustjóra utan 35 stykkja sem embættið fékk afnot af vegna æfinga innan Öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli. Þeim hafi verið skilað og séu vopnin geymd í viðurkenndum skotvopnageymslum.