Engar hæfniskröfur eru gerðar til fólks sem Alþingi kýs í bankaráð Seðlabankans. Eðlilegt væri að gera sömu kröfur til bankaráðsmanna og til stjórnarmanna í fjármálafyrirtækjum segir Ómar H. Kristmunsson, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og sérfræðingur í opinberri stjórnsýslu, í samtali við Fréttablaðið.

Lögfestar hafa verið kröfur um hæfi stjórnenda og stjórnarmanna fjármálafyrirtækja, og hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með að þær kröfur séu uppfylltar. Meðal annars er krafist háskólamenntunar sem nýtist í starfi, starfsreynslu og þekkingar á starfsemi fyrirtækisins. Engar slíkar kröfur eru gerðar til þeirra sem Alþingi skipar í bankaráð Seðlabankans. Einu skilyrðin eru þau að þeir starfi ekki fyrir fjármálastofnanir sem eiga viðskipti við Seðlabankann.

Ómar segir í samtali við Fréttablaðið hugsanlega skýringu vera að lög um Seðlabankann séu frá árinu 2001 en kröfurnar um hæfi stjórnenda og stjórnarmanna fjármálafyrirtækja voru lögfestar á síðasta kjörtímabili.