Svo til engar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu uppfylla skilyrði til hlutdeildarláns frá ríkinu, sem ætlað er að hjálpa fyrstu kaupendum sem ekki eiga fyrir útborgun að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Verði skilyrðunum ekki breytt mun úrræðið í reynd leggjast af að sögn fasteignasala.

Sökum þess hve erfitt það getur reynst fólki að koma inn á fasteignamarkaðinn í fyrsta sinn gripu stjórnvöld til þess ráðs í fyrrahaust að bjóða svokölluð hlutdeildarlán til fyrstu kaupenda. Samkvæmt þeim lækkar eiginfjárkrafan á kaupendur niður í fimm prósent og brúar ríkið bilið á milli hefðbundins húsnæðisláns frá lánastofnun. Það lán greiðist síðan þegar lántaki selur íbúðina.

Til að húsnæði uppfylli skilyrði fyrir slíku láni eru negld niður í reglugerð ákveðin mörk fyrir íbúðirnar. Vandamálið er hins vegar að sökum stöðunnar á markaði eru svo til engar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu sem falla að skilyrðunum.

„Þetta er ofboðslega einfalt. Ef þröskuldarnir verða ekki hækkaðir þá verða engar hlutdeildarlánaíbúðir nokkurn tímann,“ segir Hannes Steindórsson, fasteignasali hjá Lind og formaður Félags fasteignasala.

Nokkrir verktakar hafa skrifað undir samkomulag við hið opinbera um að byggja sérstakar hlutdeildarlánaíbúðir, en viðbúið er, haldi verð áfram að hækka, að þeir muni bakka út úr þeim samningum og ákveða að selja þær á almennum markaði.

Nýbyggingar hafa áhrif til hækkunar
Samkvæmt spám greiningaraðila er áætlað að fasteignaverð muni halda áfram að hækka á næsta ári og gera spár nú ráð fyrir um sjö til átta prósenta hækkun. Það telur Hannes nokkuð hóflega áætlun.

„Það er gríðarlega lítið að koma inn af notuðum íbúðum og nýjar íbúðir eru vanalega dýrari. Í fyrra voru nýbyggingar tæplega fjórðungur af seldum eignum og ef hlutfallið fer í 35-40% þá hefur það áhrif til hækkunar. Að mínu mati má því gera ráð fyrir allt að tíu prósenta hækkun.“

Nánar er fjallað um málið í fylgiritnu Fasteignamarkaður, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .