Hvalveiðar verða að óbreyttu ekki stundaðar við Íslandsstrendur í sumar, eins og Hvalur hf. áformaði. Ástæðan er sú að ekki hafa tekist samningar við Sjómannafélag Íslands um kaup og kjör háseta.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag en Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., staðfestir þetta í samtali við blaðið.

Fram kemur í frétt Morgunblaðsins að Sjómannafélagið geri þá kröfu að Hvalur greiði hásetum bætur fyrir þá skerðingu sem orðið hefur á sjómannaafslætti. Stjórnvöld hafa skert afsláttinn í áföngum og er hann nú helmingur af því sem var. Áður hafði Hvalur gengið frá samningum við félög skipstjórnarmanna og vélstjóra en í þeim samningum er miðað við þau kjör sem giltu þegar hvalveiðar voru síðast stundaðar af Hval sumarið 2010, að viðbættum þeim hækkunum sem orðið hafa síðan þá.

Þá kemur fram að Hvalur áformaði því að gera út annan hvalbát sinn í sumar. Reiknað var með að veiðarnar gætu staðið yfir í 80 til 90 daga og aflinn gæti orðið á bilinu 60 til 70 langreyðar. Áætlað var að um 100 starfsmenn fengju vinnu við úthaldið í þrjá til fjóra mánuði. Á vertíðinni 2010 voru um 150 starfsmenn við veiðar og vinnslu.