Ný ríkisstjórnin mun leggja kapp á að skapa starfsumhverfi sem ýtir undir fjárfestingu og fjölgun starfa, ekki síst hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Sérstök áhersla verður lögð á vöxt útflutningsgreina, nýsköpun og nýtingu vaxtartækifæra framtíðarinnar, auk þess að tryggja jafnræði gagnvart lögum. Kemur þetta m.a. fram í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem formenn flokkanna, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson eru að kynna á blaðamannafundi á Laugarvatni.

„Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir endurskoðun regluverks atvinnulífsins með einföldun og aukna skilvirkni þess að leiðarljósi. Markmið hennar verður að minnka skrifræði og einfalda samskipti við opinbera aðila um leið og kostnaði er haldið niðri. Sérstakt markmið er að engar nýjar íþyngjandi reglur verði innleiddar fyrir atvinnulífið án þess að um leið falli brott jafnveigamiklar kvaðir. Þannig munu heildaráhrif regluverksins þróast í rétta átt.“

Þá á að vinna að því að jafna samkeppnisstöðu með því að vinna gegn kennitöluflakki, tryggja jafnræði vegna greiðslu opinberra gjalda, hindra að gjaldeyrishöft skekki samkeppnisstöðu fyrirtækja og koma í veg fyrir að fjármálastofnanir stjórni rekstrarfélögum til langs tíma.