„Ég mun auðvitað starfa áfram í þágu félagsins og aðstoða nýjan forstjóra Helga Þórhallsson eins lengi og þess þarf. Mín sterka hlið er hins vegar í verkefnaþróun og þangað leitar hugurinn. Verkefnið United Silicon hf. er nú fullþróað og rétti tíminn til að láta taumana í hendurnar á þessum reynsluboltum,“ segir Magnús Garðarsson, fráfarandi framkvæmdastjóri og stærsti hluthafi í United Silicon hf.

Hann mun starfa áfram sem framkvæmdastjóri eignarhaldsfélags United Silicon, Kísill Ísland hf., og mun væntanlega færast yfir í stjórn félagsins eftir næsta ársfund. Inntur eftir því hvort hann hafi fundið næsta verkefni segir Magnús: „Það eru mörg áhugaverð verkefni sem hafa ratað inn á borð til mín bæði á Íslandi og erlendis.“

Hvað varðar frekari mannaráðningar segir Magnús að félagið hafi nú þegar ráðið góðan öryggisverkfræðing, sem hefji störf 1. júlí og hafi staða rafmagnsverkfræðings verið auglýst auk þess sem smám saman verði bætt við starfsfólki fram eftir ári. „Við erum sex starfsmenn í dag og eftir tíu mánuði munu verða hér 60 starfsmenn þannig að það eru mörg góð tækifæri fyrir hæfileikaríkt fólk frá Suðurnesjum. Það hefur vakið athygli mína að engar konur hafa sótt um þær stöður sem í boð hafa verið og vil ég nota þetta tækifæri og hvetja konur til þess að sækja um,” segir Magnús.