Bandarískir neytendur virðast hafa verið að búa til meira af guacomole og borða meira af lárperum, eða eins og alþjóðlega nafnið á ávextinum er, avocado, síðustu mánuði, til að mynda ofan á ristað brauð eins og oft er sagt vera vinsælt meðal hipstera ef miðað er við verðþróun ávaxtarins.

Sést þetta á verðþróun á heildsölumörkuðum í Mexíkó, en aðalframleiðslusvæði ávaxtarins fyrir Bandaríkjamarkað er Michoacan hérað í landinu, en þar hefur verðið ekki verið hærra síðan í ágúst á síðasta ári. Á spænsku gengur ávöxturinn undir nafninu aguacate, og palta.

Ástæðan er sögð vera aukin eftirspurn á sama tíma og framleiðendur hafa verið a draga úr týnslu ávaxtarins til að koma í veg fyrir offramboð. Bætist það við að söfnun þessa fituríka, og sykurlitla ávaxtar dregst venjulega saman yfir páskahátíðina.

Þýðir það að eru „engar lárperur á leiðinni í bili“ að því er Bloomberg fréttastofan hefur eftir David Magana, aðalgreinanda hjá Robobank International í Fresno í Kaliforníu.

Fyrir ári síðan sagði Bloomberg frá því að hótanir Donald Trump Bandaríkjaforseta um að loka landamærum ríkisins við Mexíkó hefði leitt til mikilla verðhækkana á ávextinum, eða um 34% á svokölluðum Hass lárperum sem framleiddar eru í Mexíkó.

Samkvæmt statista.com fór kílóverðið úr 31,27 mexíkóskum pesóum í 45,73 pesóa milli mánaðanna mars og apríl á síðasta ári, en miðað við það nam verðhækkunin 46,2% milli mánaða. Hæst fór verðið á síðasta ári hins vegar í 70,65 pesóa, í júlí síðastliðnum, en lækkaði svo aftur skart í ágúst niður í 51,93 pesóa, eða sem nemur 26,5%.

Miðað við núverandi gengi á mexíkóskum pesóum miðað við íslenska krónu, en einn slíkur samsvarar rétt tæplega 6 krónum nú, fór kílóverðið þar með úr tæplega 421,1 íslenskri krónu í 309,5 krónur.

Samkvæmt vefverslun Hagkaupa er kílóverð lárpera hingað til lands hins vegar 1.499 krónur, eða 330 krónur stykkið. Í netverslun Nettó er kílóverð einmitt Hass lárpera frá Mexíkó 894 krónur, sem seldar eru nokkrar saman í neti, en þær eru sagðar þar uppseldar þegar þetta er skrifað. Aðrar lárperur eru á 995 krónur kílóið, eða 249 krónur stykkið.