Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Existu [ EXISTA ], segir að félagið hafi alls ekki í hyggju að selja neina af lykileignum sínum í félögum á borð við Sampo, Kaupþing, Storebrand og Bakkavör. Til marks um það hafi hann sest í stjórnir nokkurra þessara félaga.

Á kynningarfundi uppgjörs fyrsta fjórðungs í morgun sagði Lýður að árferði í fjármálageiranum hefði ekki verið gott að undanförnu. „Og við búumst við því að svo verði áfram - á því er enginn vafi. En eins og komið hefur í ljós vorum við búin undir erfiða tíma og erum það auðvitað ennþá. Fréttir frá fjármálageiranum hafa ekki verið góðar að undanförnu - stórir bankar hafa leitað til hluthafa með neyðarútgáfu á afsláttarkjörum. Við erum ekki í þeirri  stöðu, sem sýnir undirliggjandi styrk félagsins, þrátt fyrir að orðrómur hafi myndast, sérstaklega í janúar, um að félagið stæði ekki vel. Eins og við höfum margítrekað sagt eru tímarnir erfiðir, en við eigum ekki í neinum vanda. Ég held að niðurstaða fyrsta fjórðungs sýni það vel,“ sagði Lýður á fundinum í morgun.