Icelandair gerir ekki ráð fyrir Boeing 737 MAX í leiðakerfi félagsins yfir háönnina næsta sumar. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Icelandair sendi frá sér í kjölfar þess að Boeing greindi frá því í gærkvöldi að MAX vélarnar, sem hafa verið kyrrsettar frá því í mars myndu ekki taka á loft fyrr en um mitt þetta ár.

Í tilkynningunni segir að vegna ráðstafanna sem Icelandair hefur þegar gripið til verði áhrif á útgefna flugáætlun félagsins óveruleg. Ástæða þess sé að flugáætlunin hafi verið sett upp með það að leiðarljósi að takmarka áhrif vegna frekari tafa á afléttingu kyrrsetningarinnar. Icelandair hefur nú bætt við þriðju Boeing 737-800 vélinni en félagið hafði áður greint frá því að búið væri að leigja inn tvær vélar af þeirri tegund og að unnið væri að leigu á þeirri þriðju. Þá munu fleiri Boeing 757 vélar verður lengur í flota félagsins en áður var gert ráð fyrir.

Þá segir jafnframt að ljóst sé að fjárhagsleg áhrif áframhaldandi kyrrsetningar verði mun minni á þessu ári en því síðasta. Það skýrist af ráðstöfunum félagsins auk þess sem meiri fyrirvari á við leigu á vélum geri það að verkum að leigukjör séu mun hagstæðari. Þá munu áhafnir Icelandair fljúga leiguvélunum en ekki áhafnir leiguflugfélaga sem leigðar voru inn með skömmum fyrirvara árið 2019.