Staðan í síldardeilunni er óbreytt að loknum fundi strandríkja. Færeyingar lögðu ekki fram nýjar tillögur í deilunni eins og búist var við. Stefnt er að því að koma á fót vinnunefnd vísindamanna sem kortleggur síld í Norðaustur-Atlantshafinu. Þetta kemur fram í frétt á vef atvinnuvegaráðuneytisins. Vísað er í fréttina á vef Fiskifrétta.

Í dag lauk tveggja daga strandríkjaviðræðum Íslands, Noregs, Rússlands, Færeyja og Evrópusambandsins, um norsk-íslenska síld í London. Reglubundinn fundur strandríkjanna er samkvæmt venju haldinn í október en Ísland boðaði sérstaklega til þessa fundar vegna óska frá Evrópusambandinu og Færeyjum vegna þeirrar stöðu sem uppi er um skiptingu stofnsins. Formaður íslensku sendinefndarinnar var Kristján Freyr Helgason.

„Eins og kunnugt er hafa Færeyingar einhliða hækkað kvóta sinn sem þeir hafa samkvæmt samningi frá 2007, úr rúmum 5% í 17% og í kjölfar þess hefur Evrópusambandið beitt Færeyjar viðskiptaþvingunum og gengið þar mun lengra en ásættanlegt er.

Vinna er hafin við að móta tillögur um að setja á fót vinnunefnd vísindamanna með það að markmiði að kortleggja viðveru síldar á öllum lífsstigum í Norðaustur-Atlantshafinu. Stefnt er að formlegri stofnun vinnunefndarinnar á næsta fundi í október.

Fyrir fundinn var búist við að Færeyingar myndu leggja fram tillögur að nýrri skiptingu aflaheimilda. Engar slíkar tillögur voru lagðar fram og því ljóst að staðan í deilunni er óbreytt en næsti fundur um deiluna verður haldin í október eins og áður sagði,“ segir í frétt á vef ráðuneytisins.