Það verður bannað að selja og skjóta upp rakettum með priki á Svalbarða um komandi áramót, eða “raketter med styrepinne” eins og Norðmenn kalla það. Einungis verður leyft að selja og nota flugelda á borð við skottertur eða skotbakka og rakettur sem skotið er úr hólkum á jörðu niðri.     Þetta kemur fram í nýjasta blaði Svalbardposten sem er nyrsta fréttablaðsútgáfa í heimi, en blaðið er gefið út í bænum Longyearbyen við Ísafjörð á Svalbarða. Hefur blaðið þetta bann eftir slökkviliðsstjóranum Jan Olav Sæter. Ástæðan fyrir banninu eru ítrekuð tjón og slys sem hlotist hafa af rakettum með prikum þegar þær falla til jarðar.     Roy Albrigtsen, skoteldasali á Svalbarða, segir þetta ekkert vandamál, enda hafi rakettur með priki ekki verið vinsælastar á skoteldalistanum í Longyearbyen undanfarin ár. “Það er skotbakkafírverk sem hefur verið vinsælast síðustu árin,” segir Albrigsen. “Stærstu skotbakkarnir geta skotið um 60 til 100 metra upp í loftið og ættu því að sjást vel í bænum.”     Er greint frá því að 155 mann hafi slasast af völdum skotelda um síðustu áramót og þar af 68% af rakettum með priki. Ekki kemur þó fram í fréttinni hvort norskir rakettuskotmenn hafi gleymt að sleppa prikinu eins og íslenskum kollegum þeirra er uppálagt að gera.