Engar sérstakar reglur gilda um hvenær málefni Íbúðalánasjóðs og önnur mál sem varða stóra útgefendur á markaði eru rædd á fundum þingnefnda eða annars staðar á vegum hins opinbera. Íbúðalánasjóður er stærsti einstaki skuldabréfaútgefandinn á markaði en samtals nam verðbréfaútgáfa sjóðsins um 848 milljörðum samkvæmt síðasta árshlutauppgjöri sjóðsins. Í sumum tilvikum er um að ræða opna fundi sem sýnt er frá á vef Alþingis, eins og fundir skipulags- og eftirlitsnefndar um málefni Íbúðalánasjóðs á undanförnum vikum þar sem fyrrverandi stjórnendur sjóðsins hafa setið fyrir svörum.

Samkvæmt upplýsingum sem Viðskiptablaðið fékk hjá skrifstofu Alþingis þá eru viðkvæm mál sem eru bundin trúnaði færð inn í svokallaða trúnaðarmannaskrá og gilda sérstakar reglur um slík mál. Annars er ekki farið eftir neinum reglum um hvort fundir um málefni sem varða viðskipti á markaði séu hafðir utan opnunartíma Kauphallar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .