Fyrir stuttu komst í umferð myndband af starfsmanni í verksmiðju Kellogg´s í Memphis í Bandaríkjunum þar sem hann kastaði af sér þvagi á færiband í verksmiðjunni árið 2014. Sakamálarannsókn er þegar hafin í Bandaríkjunum, en Kellogg´s hefur gefið það út að fyrirtækið tekur atvikið mjög alvarlega og mun vinna náið með þarlendum yfirvöldum til að hafa uppi á þeim einstaklingi sem er ábyrgur.

Í tilkynningu frá Nóa Síríus er haft eftir Kristjáni Geir Gunnarssyni, framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs Nóa Síríus, dreifingaraðili Kellogg´s á Íslandi, að það sé útilokað að íslenskir neytendur hafi keypt vörur úr umræddri verksmiðju í Bandaríkjunum. Hann segir að allar Kellogg´s vörur sem félagið flytji til landsins komi frá Bretlandi og séu framleiddar þar í landi.

„Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál fyrir vörumerkið Kellogg´s en neytendur á Íslandi þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af því að þeir hafi keypt vörur eða muni kaupa vörur úr umræddri verksmiðju.“