Una Jónsdóttir, deildarstjóri leigumarkaðsmála hjá Íbúðalánasjóði telur að ekki séu til neinar töfralausnir við þeim vanda sem steðji að fólki á leigumarkaði. Að öllum líkindum þurfi að koma fram með ólíkar lausnir fyrir ólíka hópa. Ef styðjast eigi við erlendar fyrirmyndir þá sé mikilvægt að aðlaga þær að íslenskum aðstæðum. Of hæg uppbygging á hagkvæmu húsnæði sé eitt stærsta vandamálið hér á landi. Skortur á húsnæði hækki verð og auki óvissu. Una talaði á opnum fundi Eflingar á Grand hotel í vikunni.

Efni fundarins var mögulega aðkoma lífeyrissjóðanna að leigumarkaði. Frummælandi var Ólafur Margeirsson hagfræðingur.

Áætlað er að á þriðja þúsund slíkar íbúðir rísi á næstunni m.a. með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga. „Það kemur mjög skýrt fram í lögunum um almennar íbúðir að leiga fyrir þessar íbúðir eigi að jafnaði ekki að fara umfram fjórðung heildartekna leigjenda. Þarna erum við því komin með lausn á leigumarkaði fyrir efnaminni fjölskyldur og einstaklinga þar sem leigan er í samræmi við greiðslugetu. Tekið skal fram að það geta ekki allir gengið inn í þetta kerfi, þetta er fyrir fólk undir ákveðnum tekju- og eignamörkum.“

Una bætti við að aðkoma lífeyrissjóðanna að útleigu íbúðarhúsnæðis yrði ánægjulegt skref en sló þó þann varnagla að sumir gætu átt erfitt með að ráða við að greiða leiguverðið þar sem leigan í íbúðum lífeyrissjóðanna yrði örugglega ákveðin á markaðslegum forsendum.