Fjórir úthafstogarar Evrópusambandsins héldu burt af veiðum við Svalbarða fyrr í vikunni, enda veiðiheimildir ársins nánast uppurnar. Ekkert samkomulag hefur tekist milli Noregs og ESB um frekari veiðar á Svalbarðasvæðinu.

Starfsmaður norska atvinnuvega- og sjávarútvegsráðuneytisins segir, i viðtali við norska Fiskeribladet, að viðræður séu í gangi um gagnkvæmar veiðiheimildir Noregs og ESB fyrir næsta ár. Hins vegar sé ekkert tilefni til þess að ræða veiðiheimildir ESB á Svalbarðasvæðinu, þar sem Noregur ákveði þær einhliða.

Fjórtán evrópsk útgerðarfyrirtæki hafa, ásamt ENAFA, samtökum evrópskra útgerða, stefnt Noregi fyrir að hafa úthlutað ESB minni veiðikvóta á Svalbarðasvæðinu en áður. Þau saka Norðmenn um að mismuna veiðiríkjum þar og segja það brjóta í bága við Svalbarðasamninginn frá 1920.

Samningurinn fól í sér að Noregur fer með stjórn fiskveiða á hafsvæðinu við Svalbarða en með þeim takmörkunum að aðildarríki samningsins eigi að njóta þar jafnræðis. Norðmenn segja að þessi jafnræðisregla eigi ekki við um 200 mílna fiskverndarsvæði sem þeir lýstu yfir árið 1977. Eftir að alþjóðlegi hafréttarsamningurinn tók gildi árið 1982 hafa Norðmenn litið á þetta svæði sem hluta efnahagslögsögu sinnar. Jafnræðisreglan nái aðeins til landsvæðisins á Svalbarða og 12 mílna landhelginnar þar.

Vald þeirra til að úthluta fiskveiðiheimildum á Svalbarðasvæðinu, einhliða eða með samningum við önnur ríki, hefur þó verið umdeilt.

Norðmenn heimiluðu ESB-ríkjum að veiða 17.885 tonn á árinu 2021 og hafa þá dregið 5.500 tonna hlut Bretlands frá kvóta ESB-ríkjanna. Enda hafði Bretland þá yfirgefið Evrópusambandið.

ESB úthlutaði hins vegar sjálfu sér veiðiheimildir upp á 28.431 tonn fyrir árið 2021, og ætluðu reyndar Bretum 8.800 tonn þar af. Þarna miðar ESB við veiðireynslu fyrri ára samkvæmt samkomulagi sem áður hafði verið gert milli ESB og Noregs.