„Það eru engar viðræður í gangi við kröfuhafa og ég tjái mig ekki um það hvort eða hvenær viðræður fara af stað,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra spurður um viðræður á milli kröfu­hafa gömlu bankanna og ríkisstjórn­arinnar.

„Það liggur í hlutarins eðli að það er hlutverk slitastjórna að koma saman nauðasamningi og eftir atvikum að eiga síðan samskipti við seðlabankann vegna þeirra hafta á fjármagnsflutn­ingum sem í gildi eru,“ segir hann.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins sagði í gær að hugmyndir væru uppi um að kröfuhafar bankanna myndu greiða 100 milljarða króna í sérstakan sjóð, sem Ríkisendurskoðun hefði umsjón með. Þessar hugmyndir virðast því ekki sprottnar úr viðræðum stjórnvalda og kröfuhafa.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í samtali við Kjarnann sömuleiðis að kröfuhafar bankanna þurfi að sýna frumkvæði svo hægt verði að afnema gjaldeyrishöftin.