Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, neitar því aðspurður að viðræður séu hafnar við Framsókn um mögulegt meirihlutasamstarf í Kópavogi.

Fyrr í dag birti DV frétt þess efnis að meirihlutaviðræður væru hafnar milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar. Í fréttinni kom fram að Ármann Kr. Ólafsson yrði áfram bæjarstjóri og oddviti Framsóknar, Birkir Jón Jónsson, myndi taka við sem formaður bæjarráðs. Einnig kom fram að formleg tilkynning sé væntanleg um helgina.

Mikil óeining er ríkjandi meðal Sjálfstæðismanna um hvort hefja eigi viðræður við BF Viðreisn eða Framsóknarflokkinn.

Ármann Kr. Ólafsson sagði í samtali við Viðskiptablaðið að ekkert væri hæft í frétt DV. Ekki náðist í Birki Jón Jónsson, oddvita Framsóknar í Kópavogi, við vinnslu fréttarinnar.