Fjármálaráðherrar evruríkjanna hafa útilokað frekari viðræður við grísk stjórnvöld fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu á sunnudag. Kemur þetta fram í frétt BBC .

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni munu Grikkir segja já eða nei við tillögum lánadrottna ríkissjóðs frá því í síðustu viku, en forsætisráðherrann Alexis Tsipras mun hvetja kjósendur til að segja nei.

Bankar hafa verið lokaðir alla vikuna eftir að evrópski seðlabankinn frysti lausafjáraðstoð við gríska banka. Getur almenningur aðeins tekið sextíu evrur út úr hraðbönkum á degi hverjum.

Undantekning var gerð á þessu í gær, þegar ákveðið var að leyfa ellilífeyrisþegum að taka einu sinni út allt að 120 evrur, en margir þeirra eiga ekki greiðslukort.

Í frétt BBC segir að örtröð hafi myndast við marga banka og að ekki hafi allir fengið afgreiðslu sem vildu.

Tsipras segir að að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu verði fljótlega samið við lánadrottna og að bankar muni þá opna að nýju.