Ólafur Jónsson sparisjóðsstjóri í Sparisjóði Siglufjarðar, segir engar samningaviðræður í gangi um stofnun nýrrar norðlenskrar peningastofnunar með Saga Capital sem stærsta eiganda og í samstarfi við KEA. Vísar hann því algjörlega á bug frétt Ríkisúrvarpsins þess efnis frá því í gærkvöld.

„Það er af og frá að komnar séu á einhverjar samningaviðræður," segir Ólafur í samtali við Viðskiptablaðið.

Sparisjóður Siglufjarðar hefur þegar sameinast Sparisjóði Skagafjarðar undir nafninu Sparisjóðurinn Afl og er búið að afgreiða það mál í Fjármálaeftirlitinu. Ólafur segir að sparisjóðirnir á hvorum stað muni þó halda áfram að nota sitt gamla vörumerki þó þeir séu orðnir hluti af Afli.

Hins vegar hafi verið talið heppilegra að taka upp nýtt nafn fyrir sameiginlega stofnun, fremur en að nota einhverskonar samhnýtingu á nöfnum sjóðanna sem fyrir voru.

„Þá erum við að fara í sameiningu við Sparisjóð Ólafsfjarðar líka og verður hann þá hluti af móðurfélaginu Afli, en heldur áfram sínu nafni. Þetta er nú í vinnsluferli.”

Í frétt Ríkisútvarpsins var talað um að inni í myndinni með Saga Capital væri KEA, Kaupfélag Skagfirðinga, Sparisjóður Skagafjarðar, Sparisjóður Siglufjarðar, Sparisjóður Ólafsfjarðar, Sparisjóður Höfðhverfinga á Grenivík og Sparisjóður Svarfdæla. Ólafur segist ekki kannast við slíka sameiningu og Lúðvík Sigurjónsson forstjóri Saga Capital og stjórnarmenn Sparisjóðs Siglufjarðar kannist heldur við málið.

„Það eina sem er ljóst í þessu er að við verðum í einni sæng, Sparisjóðir Siglufjarðar, Ólafsfjarðar og Skagafjarðar.”

Ólafur segist vissulega ræða við aðra fulltrúa sparisjóðsstjóra eins og gengur.

„Ég hef einu sinni talað við sparisjóðsstjórann á Grenivík og einu sinni við stjórnarformann Sparisjóðs Svarfdæla. Það var bara til að heyra í mönnum hljóðið og velta vöngum eins og gengur. Það er hins vegar ekkert byrjað að ræða um einhverja sameiningu.”

Ólafur segir stöðu Sparisjóðs Siglufjarðar og Skagfirðinga þokkalega, en ekki væri búist við að þeir skiluðu arðsemi á þessu ári og síðasta ár virtist vera á svipuðu róli. Hann segir að Sparisjóðurinn Afl hafi á undanförnum árum þurft að afskrifa í kringum 1% af útlánum, en keyri á miklum varúðarsjónarmiðum.

„Við gerum hins vegar ráð fyrir að þurfa að afskrifa í kringum 2% á þessu ári eða ríflega það.”

Segir Ólafur að sjóðurinn hafi samt ekki tekið þátt í hlutabréfakaupum, hvorki sem eigandi né lánveitandi. Þá hafi sjóðurinn lánað mjög lítið til verktakastarfsemi og eignarhaldsfélaga. Stærsti viðskiptavinahópurinn er einstaklingar og þar á eftir komi smábátaúrgerð sem sé vissulega mjög skuldsett en með mikið sjóðsstreymi.

Þriðji stærsti hópurinn er landbúnaður í Skagafirði. Hjá Afli á Siglufirði og í Skagafirði starfa nú um 15 manns ef undan er skilin fjarvinnsla sem unnin er fyrir Kaupþing.