Engey RE, ísfisktogari HB Granda, hefur sem kunnugt er verið seldur til rússneska útgerðarfélagsins Murmansk Trawl, og sigldi hann í austurátt sennilega í síðasta sinn frá Reykjavíkurhöfn 5. júní síðastliðinn. Hann verður djásnið í flota útgerðarfélagsins, ekki nema tveggja ára gamalt skip og einn tæknilega fullkomnasti ísfisktogari heims. Murmansk Trawl gerir út tíu aðra verksmiðju- og ísfisktogara sem flestir eru nálægt 30 ára gamlir.

Stærstu skip Mumansk Trawl eru verskmiðjutogararnir Shabalin, Kutakhov og Kosarev, sem eru 120 metra langir og með 90 í áhöfn. Damidenko er 105 metrar á lengd og með 95 manna áhöfn. Engey á hinn bóginn er ekki nema 54 metrar á lengd og því eitt minnsta skipið í flota útgerðarfélagsins.

Murmansk Trawl er í eigu hins rússneska Norebo Holding, eins stærsta útgerðarfélags heims. Norebo  hefur samið um smíði á tíu togurum í tengslum við fjárfestingakvóta rússneska stjórnvalda og eru þau smíðuð eftir teikningum og hönnun Nautic og Knarr samstæðunnar íslensku.

Engey er þriðja skipið sem Norebo kaupir af félögum tengdum Guðmundi Kristjánssyni, forstjóra HB Granda. Nýlega keypti Norebo Brimnes og Skálaberg sem voru skip útgerðarfélagsins Brims.

Auk Murmansk Trawl er Norebo eigandi 13 annarra útgerðarfyrirtækja sem gera út til veiða á norðvestur- og austursvæðum Rússlands. Flotinn samanstendur af 43 togurum og farmflutningafélagi með fimm skipum.